
Við vorum að gera okkur tilbúnar fyrir fyrsta ballið í 10. bekk þegar rafmagnið fór.
Allt símasamband líka. Netið. Um leið hættu bílarnir að virka – og flugvélarnar. Við vorum orðin ein í heiminum. En það hlyti að lagast?
Nokkrum dögum seinna sótti pabbi byssuna.
Þegar mánuður var liðinn var fólk farið að deyja og ljóst að veturinn yrði langur.
Þá hitti ég hana.
Unnur er að undirbúa sig fyrir fyrsta ballið í 10. bekk þegar rafmagnið fer, allt síma- og netsamband dettur út og farartæki stöðvast. Ísland verður algjörlega sambandslaust við umheiminn. Leikreglur samfélagsins breytast á örfáum dögum og ógnin verður helsti gjaldmiðillinn.
Sólgos er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka 2025 og til Fjöruverðlaunanna 2026 í sama flokki.
⭐⭐⭐⭐🌠 – „Sólgos er heillandi, krefjandi og spennandi ungmennabók, sem á erindi við fullorðna um leið. Framvindan er hröð í áleitinni og trúverðugri hamfarasögu sem fær lesandann til að velta fyrir sér hvað hann myndi gera í þeirri stöðu sem Unnur og faðir hennar og stjúpmóðir eru í. Myndir þú gera allt til að vernda þig og þína? Hversu lengi og hversu mikið getur þú haldið í samkenndina? Hvaða gildi verða ofan á, hver þarf að varðveita og hverju ætlum við að fórna? Sólgos á erindi við öll ungmenni og foreldra þeirra.“ – Ragna Gestsdóttir, DV.
⭐⭐⭐⭐ – „Á heildina litið er Sólgos því vel heppnuð ungmennabók sem spyr áleitinna spurninga og tekst á við snúið umfjöllunarefni af skerpu og einlægni. Hún setur lesandann í siðferðislega klemmu og skelfir inn að beini en veitir um leið von byggða á mannlegri gæsku, samkennd og fegurð sem, eins og reyndin hefur sýnt í gegnum söguna, getur þrifist jafnvel í harðneskjulegustu aðstæðum.“ – Snædís Björnsdóttir, Morgunblaðið.
⭐⭐⭐⭐ – „Sólgos er heilt yfir vel skrifuð unglingabók sem vekur lesendur til umhugsunar um fortíð, nútíð og framtíð. Framvindan er hröð og spennandi en spyr einnig krefjandi spurninga – spurninga sem við ættum öll að spyrja okkur, jafnt ungir sem aldnir.“ – Unnur Steina K. Karls, Heimildin.
„Sólgos er snörp og áhrifamikil bók sem ég geri ráð fyrir að hitti í mark hjá ungu kynslóðinni. Frásögnin er sláandi og situr eftir í manni.“ – Rebekka Sif, Lestrarklefinn.
⭐⭐⭐⭐⭐ – „Bara lesið hana, ekki aðeins ungmennabók. Grípandi, gífurlega vel skrifuð, dystopía, það er svo margt í henni.“ – Bókagramm
⭐⭐⭐⭐🌠 – „Sólgos er frábær unglingabók sem smellpassar í jólapakkann!“ – Alma hjá TBR Listanum Hlaðvarpi
„Sagan er listilega vel skrifuð og vekur upp ýmsar siðferðislegar spurningar. Þó bókin sé vissulega skrifuð með ungmenni í huga á hún ekki síður erindi við fullorðið fólk og er bæði stutt og fljótlesin. Ég mæli hiklaust með Sólgosi fyrir öll yfir 12 ára aldri.“ – Hrönn Soffía Björgvinsdóttir, bókameðmæli vikunnar frá Amtsbókasafninu á Akureyri á Akureyri.net.
„Áhrifarík og spennandi hamfarasaga þar sem lesendur fá að fylgjast með áhugaverðum sögupersónum í ógnvekjandi og spennandi aðstæðum. Höfundi tekst vel að skapa trúverðuga mynd af breyttu samfélagi og fangar athygli lesenda sem hann sleppur ekki fyrr en löngu eftir að lestri lýkur.“ – Dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2025 í barna- og ungmennabókaflokki.
„Sólgos Arndísar Þórarinsdóttur er fantavel skrifuð bók um hvað gerist þegar heimurinn breytist á augabragði, ekkert er eins og það var og enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Með augum Unnar fylgjast lesendur með því hvernig er tekið á tækni- og samskiptahruni en líka því hvað verður um siðgæði og samkennd. Sólgos er næm saga um málefni sem snerta okkur öll og stóra spurningin er í raun: Hvað skiptir okkur mestu máli?“ – Dómnefnd Fjöruverðlaunanna 2026 í barna- og ungmennabókaflokki.
Bókin fæst m.a. hjá Forlaginu, Pennanum, Skáldu, Nexus og Bóksölu Stúdenta.
Námsefni er til með bókinni og aðgengilegt án endurgjalds.
Hittumst í jólabókaflóðinu!
- 30.10. Opið hús hjá mér í Gunnarshúsi – kíkið við á vinnustofunni milli 12 og 18!
- 6. 11. Bókakonfekt Forlagsins
- 13.11. Stefnumót við lesendur á Kringlusafni ásamt Ásu Marin og Margréti Höskuldsdóttur
- 15. og 16.11. Hittið mig á Bókahátíðinni í Hörpu – ég er á unglingabókaupplestri á laugardeginum og í pallborði á sunnudeginum!
- 20.11. Bókakonfekt Forlagsins (að lesa úr Morði og messufalli)
- 3.12. Ungmennabókaupplestur í Gunnarshúsi ásamt öllum ungmennabókahöfundum ársins
- 9.10. Bókaboð Arndísar í Bókaverslun Forlagsins á Fiskislóð
- 10.12. Jólabókaspjall um ungmennabækur á Bókasafni Kópavogs
- 13.12. Arndís og Ævar Þór árita í Pennanum Smáralind kl. 13-14
- 18.12. Arndís og Ævar Þór árita í Pennanum Smáralind kl. 19-21
- 22.12. Arndís og Ævar Þór árita í Pennanum Kringlunni kl. 15-16
